Ertu í ljósi?

Raunfærnimat í viðburðalýsingu

Verkefnið er skipulagt ferli þar sem lagt er formlegt mat á alhliða þekkingu og færni einstaklingsins sem hann hefur aflað sér með t.d. starfsreynslu, námi, félagsstörfum og lífsreynslu. Raunfærnimat er mat og staðfesting á þekkingu og reynslu.

Raunfærnimat  í þessu verkefni „Ertu í ljósi?“ er á móti viðmiðum sem eru búin til í atvinnulífinu og er það sjaldgæfara en raunfærnimat  sem fer fram á móti námsskrá. Markmiðið er að einstaklingur fái viðurkennda þá raunfærni sem hann býr yfir.

Ef þú starfar við viðburðalýsingu og hefur gert það í nokkur ár þá er þetta eitthvað fyrir þig.

Bæklingur á PDF formi og  Áætlun á vorönn 2018

Hægt er nálgast frekari upplýsingar um raunfærnimat í síma 580 5256 eða með því að senda póst á isleifur@rafnam.is

Áætlað er að halda raunfærnimat í viðburðalýsingu á vorönn 2018 ef næg þátttaka fæst.

Kynningarfundur verðu miðvikudaginn 31. janúar klukkan 17:00 á Stórhöfða 27 1 hæð (Gengið inn Grafarvogs megin)  Veggspjald

 Umsóknareyðublað um þátttöku í raunfærnimati í viðburðalýsingu. Best er að vista skjalið á skjáborðið og senda síðan útfyllt á isleifur(hjá)rafnam.is

Raunfærnimatið „Ertu í ljósi?“ var haldið í fyrsta skipti  á vorönn 2016

Ferlið:

·         Þú kynnir þér verkefnið
·         Kynningarfundur
·         Ákvörðun um hvort þú sækir um
·         Umsóknareyðublað
·         Bókar viðtal við náms- og starfsráðgjafa
·         Þú ferð í viðtal við náms- og starfsráðgjafa
·         Kynning á ferlinu Færnimappa
·         Þú leggur fram gögn um reynslu
·         Endanlegur hópur þátttakenda verður til
·         Þú skráir reynslu og leggur mat á þekkingu þína miðað við færniviðmið
·         Skráir reynslu, fyrra nám og aðra þekkingu sem þú býrð yfir
·         Sjálfsmat – þú leggur mat á færni út frá færniviðmiðum Sjálfsmatslisti
·         Samtal við stjórnanda eða samstarfsmann um sjálfsmat þitt

Þú ferð í raunfærnimat:
·         Raunfærnimat byggist á samtali milli þín og  þess sem er matsaðili
·         Þar er lögð áhersla á að þú fáir tækifæri til að koma á framfæri
þekkingu þinni og færni
·         Þú getur verið beðin/n um að sýna færni þína, það geta verið lagðar fyrir  lýsingar á aðstæðum og þú beðin/n að vinna úr þeim eða settar fram aðrar  aðferðir sem nýtast í því skyni að gera færni þína sýnilegri

Að loknu raunfærnimati:
·         Farið yfir niðurstöður með þér
·         Þú færð í hendur staðfestingu á færni

Átt þú erindi?

Færniviðmiðin eru á tveimur þrepum.

3. þrep: Vinnur almennt undir leiðsögn annarra  en getur framkvæmt einfaldari  verk  á afmörkuðum sviðum.

Kröfur um aldur og starfsreynslu:  23 ára og þriggja  ára reynsla í viðburðalýsingu.

4. þrep: Vinnur sjálfstætt að  verkefnum, tekur  faglegar ákvarðanir, bregst  við óskum stjórnenda/verkkaupa, kemur að stýringu verkefna og veitir ráðgjöf á sjálfstæðan hátt.

Kröfur  um aldur og starfsreynslu:  25 ára og fimm  ára reynsla í viðburðalýsingu.

Ef þú hefur starfsreynslu og hefur ekki lokið námi á framhaldsskólastigi í viðburðalýsingu þá er þess virði að kynna sér málið.

Hver er tilgangurinn?

Undanfarið ár hefur verið unnið að því að skilgreina hvaða færnikröfur þeir sem starfa við viðburðalýsingu þurfa að uppfylla í starfi sínu. Myndaður var faghópur sem samanstendur af einstaklingum úr ólíkum geirum viðburðalýsingar og hópur stjórnenda sem mótuðu kröfur um færni viðburðalýsingamanna.  Auk þess var tekið mið af námsskrá Tækniskólans skóla atvinnulífsins. Nú liggja þessi færniviðmið fyrir og býðst þeim sem hafa starfsreynslu í viðburðalýsingu að fara í raunfærnimat á móti þeim.

Eftir raunfærnimat fær einstaklingurinn skjal þar sem færni hans er staðfest. Það skjal getur hann notað til að sýna fram á færni sína á núverandi  vinnustað, þegar hann sækir um vinnu eða þegar hann þarf að sýna fram á færni vegna verkefna.

Markmiðið er að eftir raunfærnimatið liggi fyrir skilgreining á færni viðkomandi einstaklings. Þessar upplýsingar getur hann einnig nýtt til að sækja frekari þekkingu ef hann telur þörf á.

Í stuttu máli, markmið raunfærnimats er að meta færni og gefa út staðfestingu á henni.

Hverjir standa að verkefninu?

Verkefnið er unnið að frumkvæði Félags tæknifólks í rafiðnaði en í stýrihópi sitja fulltrúar fyrirtækja  í viðburðalýsingu auk Tækniskólans skóla atvinnulífsins og Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins stýrir verkefninu og leggur til sérfræðiþekkingu vegna raunfærnimats en Mímir-símenntun sér um náms og starfsráðgjöf.

Verkefnið er hluti af Leonardo verkefninu REVOW – Viðurkenning á gildi starfa og er unnið með styrk frá  Starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins og Starfsmenntaráði.