Nám í rafiðngreinum

Rafiðnaður skiptist í sterkstraum og veikstraum.

Grunndeild rafiðna er 4ra anna grunnnám fyrir allt rafiðnaðarnám.

Sterkstraumur skiptist í rafvirkjun, rafvélvirkjun og rafveituvirkjun.

Veikstraumur skiptist í rafeindavirkjun og símsmíði, einnig eru tæknimenn kvikmyndahúsa og ljósvakamiðla innan þeirra greinar.

Sveinspróf eru haldin tvisvar á ári í febrúar og í júní. Sveinsprófsnefnd fyrir sterkstraum sér um próf í rafvirkjun, rafvélavirkjun og rafveituvirkjun og sveinsprófsnefnd fyrir veikstraum sér um próf í rafeindavirkjun og símsmíði.

Menntamálaráðuneytið, Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins og sveinsprófsnefndir í rafiðnaði hafa gert með sér samning vegna umsýslu námssamninga í rafiðngreinum og sveinsprófa. Í samningi þessum er Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins falin umsýsla sveinsprófa, eftirlit með gerð og framkvæmd námssamninga í rafiðngreinum. Gera þarf námssamning ekki seinna en mánuði eftir að vinna hefst hjá meistara í faginu. Nemendur verða að vera orðnir 16 ára til að mega fara á námssamning.

Menntamálaráðuneytið setur reglugerðir um námssamninga og starfsþjálfun (nr.280 frá 17. apríl 1997), með reglugerð um breytingu (nr.423 frá 6. júní 2000) og reglugerð um sveinspróf (nr. 525/2000). Í reglugerðum þessum er fjallað um skyldur samningsaðila og þau skilyrði sem uppfylla þarf til að taka að sér kennslu nema á vinnustað og framkvæmd sveinsprófa.

Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins veitir nemum og rafiðnaðarfyrirtækjum allar upplýsingar er varða gerð náms- og starfsþjálfunarsamninga og er til aðstoðar um gerð þeirra.

Hjá Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins liggja frammi öll eyðublöð er varða rafiðnaðarmenntun. Þangað skulu öll erindi er varða nýja námssamninga berast, óskir um breytingar á námssamningum og umsóknir um sveinspróf.

Starfsmenn fræðsluskrifstofunnar eru:

Ísleifur Árni Jakobsson isleifur@rafnam.is

Jens Heiðar Ragnarsson jens@rafnam.is